29.2.2008 | 20:13
Vefumhverfi nemenda
Um miðjan janúar fór ég til London ásamt þremur öðrum frá Ísafjarðarbæ. Við fórum á sýningu sem nefnist Bettshow. Hún er miðuð við menntunargeirann og þar kynna ýmis fyrirtæki í tölvugeiranum það sem þau hafa að bjóða. Einnig eru fyrirlestrar frá aðilum sem standa framarlega í kennslu á þessu sviði. Ég fór á nokkra fyrirlestra og fékk fullt af hugmyndum út frá þeim. Ein af þeim var þessi bloggsíða. Það er nefnilega ensk spjallsíða fyrir kennara, n.k. vefumhverfi þar sem fólk getur sett inn umræðustrengi, deilt reynslu sinni og leitað ráða. Vitið þið hvort það sé eitthvað fyrirtæki hér á landi sem býður upp á slíkt fyrir kennara? Ef ekki, hver haldið þið að gæti sett slíkt upp?
Annað sem ég sá var vefumhverfi fyrir nemendur, þar sem þeir byggja upp eigið verkefnasafn, þeim eru sett fyrir verkefni inni á svæðinu og fá endurgjöf frá kennara. Þetta er nýjasta nýtt í Englandi þar sem það er nýbúið að setja í lög að allir nemendur eigi að hafa aðgang að slíku svæði fyrir ágúst 2008. Á fyrirlestri kynnti kennari sína aðferð, sem er að láta nemendur setja upp bloggsíður þar sem hann setur þeim fyrir verkefni, þeir vinna verkefnin og hjálpast jafnvel að í skapandi skrifum, setja fram sögu í fimm myndum sem þeir taka á gemsana sína og setja svo inn í albúm á bloggsíðunni. Aðrir nemendur geta svo sett athugasemdir við myndirnar þar sem þau reyna að lesa söguna úr myndunum. Ég er að gera tilraun með 8. bekk þar sem ég læt þau setja upp læstar skólabloggsíður og þau eiga svo að skila þeim verkefnum sem gilda til prófs inn á bloggsíðuna. Ég er með lykilorðin að síðunni þannig að nemendur geta fengið þau hjá mér þegar þeir gleyma aðgangsupplýsingunum. Tölvuvalshóparnir í 9. og 10. bekk munu líka skila sínum verkefnum á sama hátt. Krakkarnir hafa líka verið með síður á Skólatorginu, en mér finnst þær svo takmarkaðar. Samt er í fínu lagi að nota þær á miðstiginu eins og við gerum. Meira seinna.
Laufey
Flokkur: Tölvur og tækni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.